Um ICE Design by Thora H
Sagan mín;
Þóra Hvanndal heiti ég og er skartgripahönnuður, ég hanna þjóðlega og öðruvísi skartgripi úr silfri, hrauni og roði. Ég hef alltaf haft áhuga á skartgripasmíði og var draumurinn alltaf að læra gullsmíði, ég byrjaði snemma að vinna að draumnum og má til gamans geta að ég var aðeins um 12 ára þegar ég bjó til eyrnalokka sem ég setti á korktöflu og seldi á Lækjartorgi.
Ég flutti til Danmerkur 22 ára (bjó þar í 18 ár) og lærði blómaskreytingar og fyrirtækjarekstur, en það leið ekki á löngu þar til löngunin til að læra skartgripasmíði vaknaði aftur og skráði ég mig á hálfsárs námskeið (grunnnám) í skartgripasmíði og svo ýmis styttri námskeið í mismunandi aðferðum. Síðan byrjaði ég að þróa mínar eigin aðferðir og blanda saman hefðbundnum og óhefðbundnum aðferðum, svosem með silfurleir. Lok tókst mér að láta lanþráðan draum um að nota hraunmola beint úr fjörunni rætast og ná fram því útliti sem ég var búin að ganga með í hausnum svo lengi. Þá fékk sköpunin byr undir báða vængi og hefur þróast allar götur síðan.
Það að búa erlendis í mörg ár hafði mikil áhrif á hönnun mína og má segja að söknuðurinn eftir íslenskri náttúru sé stærsti áhrifavaldurinn og hafi haft mikil áhrif á þróun á hönnun minni og úr varð þjóðleg og öðruvísi skartgripalína.
Til að byrja með vann ég með hraunið í öllu sem gerði en svo eftir heimsókn til Íslands 2007 þar sem ég kynntist roðinu fallega þá þróaðist önnur lína í hefðbundnari skart smíði með roðið í fókus. Ég íhugaði aftur á þessum tímapunkti að byrja í gullsmiða náminu sem ég dreymdi enþá um og fór að tala við námsráðgjafa en eftir langt samtal varð úr að ég ákvað að halda áfram á þeirri braut sem ég var á, með þróun á mínum eigin leiðum í skartgripahönnun og smíði. Svo stofnaði ég ICE Design by Thora H í byrjun árs 2008
Ég hef tekið þátt í fjölda sýninga og mörkuðum, fyrstu árin í Danmörku og síðan hér á Íslandi eftir að flutti heim aftur.
Ég var sem dæmi svo ótrúlega heppin að vera valin úr hundruðum umsækjanda sem 1 af 10 til að taka þátt í fyrst (2008) stærstu skartgripasýningu í Danmörku “Copenhagen Jewellery Fair” í Bella center, það var sameiginlegur bás fyrir nýja hönnuði undir nafninu “Brand new” og síðan (2009) einnig valin úr hundruðum umsækjanda sem 1 af 13 á einni stærstu skartgripasýningu á Jótlandi, “Design Ure Smykker Vejle” og var sá bás styrktur af Tröllakúlum (trollbeads) sem eru heimsþekktir danskir skartgripir . Einnig hef ég tekið þátt í fjölda annarra sýninga og markaða þar sem dómnefnd velur þátttakendur, má þar nefna KIC í Árhúsum sem var lengi vel einn sá allra þekktasti í Danmörku.
Hér á Íslandi má nefna Handverkshátíðina í Eyjafirði og Jólaþorpið í Hafnarfirði þar sem hef tekið þátt í fleiri skipti, en einnig fjölda annarra.
Í Október 2020 opnaði ég svo litlu sætu búðina í Firði verslunarmiðstöð, á 1. Hæð við pósthúsið.
Hlakka til að bjóða nýja jafnt og núverandi viðskiptavini velkomna hér í netverslun eða niðri í búð á opnunartíma.
kv Þóra H